Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Sprengjur í London

Óhugnanlegt að sjá atburði í fréttum eins og bílasprengjurnar núna sem hafa fundist í London þar sem þetta er á stöðum sem maður er alltaf á.  Ég fór t.d. á uppáhalds sushi staðinn minn í gær, Kulu Kulu, en hann er rétt hjá Piccadilly.  Þar fannst annar bíllinn og allt króað af, fréttaþyrlur í loftinu og allt í lögreglum og fréttamönnum.  Þetta er eitthvað svo nálægt manni.

Ég hef einning undanfarið lent óvenjulega oft í því að lestarnar eru ekki að ganga eins og þær eiga að gera því einhver hefur hent sér fyrir þær.  Magnað að það er alltaf tilkynnt í hátalarakerfinu þegar það gerist, sniðugt til að róa fólk...það verður engin brjálaður á seinkunum eða lokuðum línum ef maður veit að einhver var að svipta sig lífi með þessum hætti.  Á sama tíma vill maður ekkert vita það að þetta hafi verið að gerast.

 Varðandi hryðjuverkin aftur er magnað hvað manni finnst þetta eitthvað óraunverulegt. Það er þess vegna sem maður lætur sér þetta lítið varða.  Það breytist samt eflaust fljótt þegar einhver sprengja springur og ringulreiðin tekur við.  Vonum bara að það gerist ekki.    

Flóð í Skotlandi, Danmörk og eitthvað fleira...

Það er orðið svo langt síðan ég hef bloggað að ég veit varla hvar ég á að byrja.

Fyrst Danmörk.  Kaupmannahöfn er snilld.  Þar hef ég ekki verið frá því ég var 6 ára og átti þaðan þá minningu eina að vera grenjandi úr hræðslu í draugahúsi vaxmyndasafnsins.  Ég kom til Köben á föstudagskvöldi og hitti þá strax fullt af vinum og það var farinn hringur.  Góður félagi var búinn að redda okkur borði og drykkjum   á Luux.  Þar hittum við helling af Íslendingum.  Í miðbænum, daginn eftir helling af Íslendingum í búðum og bókstaflega út um allt.  Mjög fyndið.

Tónleikarnir með Justin voru í Parken og voru snilld.  Soundið slappt en showið geðveikt.  Timberland var þarna líka með DJ session sem var rosalega töff.

Heim á sunnudag,, ég og Viðar misstum reyndar af EasyJet fluginu okkar og lentum á Standby.  Þurftum að bíða eftir að síðustu farþegarnir voru búnir að tékka sig inn til að sjá hvort það væri laust sæti, sem varð raunin, svo þá var hlaupið í gegnum flugstöðina en gekk allt upp.

Á mánudagskvöldið fór ég til Skotlands til að taka þátt í golfmóti sem Icelandair sponsaði á Forest Pinesvellinum.  Þar eru búin að vera rosaleg flóð þar eins og allir hafa séð í fréttum.  Til að gera langa sögu stutta voru 3 highways lokaðir á leiðinni, öll neðsta hæðin á hótelinu var á floti, golfvöllurinn eins og sundlaug og allt í rugli.  Golfmótinu var því aflýst en okkur tókst að spila nokkra hringi eftir hádegi á þriðjudeginum sem var ferlega gaman..

Það var keyrt til baka á miðv. til London og beint í vinnuna.  Maður var frekar þreyttur þegar maður kom heim eftir vinnu á miðvikudag en á fimmtudag þurfti ég aftur að fara út fyrir London vegna vinnunnar.  Á fimmtudaginn kom Kolla Birna einnig hingað en hún verður hérna yfir helgina að slæpast með okkur.

Kaffihús og út að borða í gær en lítill hringur tekinn á Huxton Sq....það stóð til að fara á roadtrip í dag en veðrið er svo leiðinlegt að maður varla nenir því!

...sé til


Í dag er það Danmörk

Í kvöld mun ég drekka bjór í Danaveldi með mörgum vinum sem þar eru.

Annaðkvöld er það J.Timberlake í Köben!

Sumarið er tíminn! :-)


Erfitt að heita Guðmundur í London (Framhald)

 Ég sem hélt ég væri búinn að fá nafnið mitt stafað á alla mögulega vitlausa vegu...og svo rann upp dagurinn í dag og ég fór yfir póstinn minn:

 "Dear Goodmander,

I spoke to a colleague and he told me to send a proposal through...."

Fyndið að fólk sem er að selja hafi ekki meiri metnað en þetta. 

 

 


Haraldur Hárfagri fór létt með að leysa eignaréttarmál Íslands

Fyrstu landnemarnir sem komu til Íslands á níundu öld gátu tekið eins stór lönd og þeir vildu en af þeim sökum var lítið eftir fyrir þá sem á eftir komu. Þeir sem að á eftir komu leituðu því til Haralds Hárfagra um lausn á landleysi sínu en hann leysti það á eftirfarandi hátt:

,,Hann gaf það ráð að karlmönnum skyldi heimilt að nema jafnviðáttumikið land og þeir gátu farið um á einum degi frá sólarupprás til sólarlags. Landneminn og skipverjar hans skyldu gera elda og halda þeim lifandi til næstu nætur. Reykurinn varð að sjást til næsta elds.”

En Haraldur Hárfagri setti konum aðrar reglur: ,,[Þær] máttu nema svæði sem þær gátu teymt tvævetra kvígur umhverfis vorlangan dag sólsetra á milli.”

Íslands- og mannkynssaga NB 1:96


Betur má ef duga skal...

Ég hef aðeins ferðast til 16 landa!  Fer til amk Grænlands og Færeyja í ár sem er nýtt...hmmm...Frakkland og Víetnam bætast svo vonandi við og eitthvað fleira. 


create your own visited countries map or vertaling Duits Nederlands


Venjulegt fólk við óvenjulegar aðstæður

Astarfleyid_01 

Þegar venjulegt fólk er sett í óvenjulegar aðstæður hagar það sér oft mjög óvenjulega. Í raun er hægt að breyta venjulegum heilbrigðum einstaklingi í algjörann villimann á aðeins örfáum dögum.  Raunveruleikaþættir er tegund af stjónvarpsþáttum þar sem venjulegt fólk er sett í óvenjulegar aðstæður og sjónvarpsáhorfendur fá að fylgjast með öllu saman.  Gleði, grátur, ást og hatur eru meðal þeirra tilfinninga sem verða að vera ríkjandi svo áhorfendur heima í stofu sýni þáttunum áhuga.  Íslendingar hafa gert þó nokkra raunveruleikaþætti en undirritaður kom nálægt einum þeirra, Ástarfleyinu, við störf fyrir sjónvarpsstöðina Sirkus.  Þátturinn gekk út á það að hópur af stelpum og jafn mörgum strákum voru fengin til að fara á bát um miðjarðarhafið í 10 daga í þeirri von um að finna ástina.   Undirritaður kom nálægt mörgum þrepum framleiðslunnar ásamt því að stjórna algjörlega öllu kynningarstarfi sem í upphafi gekk aðalega út á það að koma sögum frá tökunum í umræðuna á Íslandi.  Við framleiðslu þáttanna kom mjög margt áhugavert í ljós.  Krakkarnir voru allir mjög meðvitaðir um hvað þeir voru að fara útí,  allir höfðu séð erlenda raunveruleikaþætti og þær tilfinningasveiflur sem þátttakendur í þeim ganga í gegnum og voru ákveðin í að lenda ekki í neinu slíku. Þetta sögðu þau flest sjálf við okkur sem komum að framleiðslunni og óformlega að eina ástæðan fyrir förinni væri til þess að komast í ókeypis utanlandsferð og skemmta sér.  Með öðrum orðum fóru þau mjög meðvituð um hvernig raunveruleikaþættir ganga fyrir sig í ferðalagið.   Þessi staðreynd er merkileg því á öðrum tökudegi voru þau öll hætt að taka eftir myndavélunum sem eltu þau stanslaust  og allar fyrri yfirlýsingar farnar fyrir ofan garð og neðan.  M.ö.o. voru þau öll búin að aðlagast aðstæðum og í raun breytast.  Krakkarnir voru komnir í annað land, við óvenjulegar aðstæður, föst á bát saman með ókunnugu fólki í rúmlega viku. Án þess að fara í smáatriði sást öll tilfinningaflóran á fyrstu tökudögunum fyrir framan linsu myndavélarinnar.  Hvernig gat það verið að krakkarnir sem voru svo meðvituð um það sem beið þeirra gátu misstu svona tökin á aðstæðum strax á fyrstu dögunum? Malcolm Gladwell kallar þetta í bókinni sinni The Tipping Point, Power of context.  Í stuttu máli þýðir Power of context að venjulegt fólk sem lendir í óvenjulegum aðstæðum getur hagað sér mjög óvenjulega.  Ein rannsókn, sennilega sú frægasta, sem skýrir þetta var tilraun sem var gerð af Philip Zimbardo við Stanford Háskóla í Bandaríkjunum í byrjun áttunda áratugarins.  Philip vildi athuga af hverju fangelsi væru svona slæmir staðir en rannsóknin er kölluð The Stanford Prison Experiment og kennd á flestum sál- og félagsfræðbrautum háskóla.  Tilraunin fór fram í kjallara sálfræðibyggingar skólans og voru 75 manns sem sóttu um að taka þátt eftir að auglýst var eftir þátttakendum.  Af þessum 75 voru 21 ráðnir en þeir komu best út úr ströngum sálfræðiprófum sem venjulegustu einstaklingarnir og andlega bestir á sig komnir.  Helmingur var svo gerður að föngum í þessu gervi fangelsi í kjallara Stanford háskóla og helmingur að fangavörðum.  Herbergjum var breytt í fangaklefa með stálhurðum og skápur notaður sem einangrunarklefi.  Mjög frumlegar aðstæður, mjög ólíkar raunverulegu fangelsi. Það leið ekki að löngu að þessir einstaklingar fóru að verða fyrir barðinu á þeim aðstæðum sem þeir voru komnir í þrátt fyrir að fangelsið væri mjög langt frá því að vera eins og alvöru fangelsi.  Fyrstu nóttina í fangelsinu vöktu fangaverðirnir fangana kl 2 um nóttina og létu þá gera armbeyjur.  Annan morguninn gerðu fangarnir uppreisn sem fangaverðirnir bældu fljótt niður.  Þeim var refsað með því að taka þá úr öllum fötunum og sprauta á þá úr slökkvitæki en forsprakki uppreisnarinnar var í framhaldi af því settur í einangrun (skápinn).  Þeir létu fangana segjast elska hvorn annan og marsera niður fangelsisganginn, handjarnaðir með poka yfir höfðinu. Mjög heilbrigðir og venjulegir einstaklingar voru farnir að haga sér eins og verstu villimenn við þessar aðstæður sem fangaverðir og grimmd þeirra átti sér engin takmörk.  Fyrsti fanginn trylltist eftir 36 klukkustundir í fangelsinu og varð að fá að fara.  Fljótlega eftir það varð að sleppa fjórum í viðbót eftir að þeir fengu væg taugaáföll.  Á sjótta degi varð að hætta við tilraunina sem átti að standa yfir í 14 daga því fangaverðirnir voru gjörsamlega búnir að missa stjórn á sér.  Er kannski hægt að skýra það hvernig hermenn Bandaríkjamanna hafa verið að koma fram við fanga með The Power of Content?  Í Stanford var um venjulega og heilbrigða einstaklinga að ræða sem höfðu gengið í gegnum strangt sálfræðipróf.  Hvernig ætli umhverfið hafi áhrif á hermenn þar sem aðstæðurnar eru stríð?Annað dæmi um The Power of Content var þegar ung stelpa hoppaði af húsþaki skóla fyrir nokkrum árum síðan.  Hún hafði farið upp á þak einnar skólabyggingar en nokkrir samnemendur hennar tóku eftir henni og byrjuðu að hrópa til hennar og klappa.  Hópur safnaðist saman fyrir framan húsið og varð úr mikill múgæsingur.  Hrópin og klöppin þróuðust út í hvatningu til hennar að hoppa en tugi nemenda voru farnir að kalla í einum rómi ,,hoppaðu, hoppaðu, hoppaðu”.  Stúlkan, sem ætlaði sér engan veginn að hoppa, var komin í aðstæður sem hún réð ekki við og kvaddi okkar heim þennan dag eftir að hafa látið sig falla!Sennilega má skýra það af hverju þýska þjóðin missti stjórn á sér á tímum Hitlers gagnvart Gyðingum á svipaðan hátt.  Venjulegt fólk missti sjónar af raunveruleikanum við þessar mjög svo óvenjulegar aðstæður sem voru uppi í þýskalandi á þessum tíma og tók þátt í Gyðingahatrinu þrátt fyrir að flestir hafi ekki vilja þeim neitt illt fyrir þessa hroðalegu atburði.Í Bandaríkjunum hafa verið gerðar kannanir á því á meðal þátttakenda í raunveruleikaþáttum um reynslu þeirra.  Nær undantekningarlaust sér fólk eftir þátttöku og hefur hún haft gríðarleg áhrif á líf viðkomandi og lang oftast á neikvæðan hátt.  Fólk hefur sagt og gert hluti við þær aðstæður sem þættirnir setja þær í sem það myndi aldrei gera annars.  Aðspurt segir það einnig eftir reynsluna að það skilji ekki hvernig það gat hagað sér eins og raun bar vitni.  Fólk virðist breytast í einhverjar aðrar manneskjur við þessar aðstæður.   Áhorfendur heima í stofu hugsa oft ,,Er ekki allt í lagi, þetta myndi ég aldrei gera, hvað er hann/hún að hugsa!”  Þeir sem horfa á heima í stofu gera sér hins vegar ekki grein fyrir því að við sömu aðstæður myndu þeir ekki haga sér öðruvísi og jafnvel ganga ennþá lengra.  Aðstæður geta nefnilega leikið okkur grátt og gert venjulegasta fólk mjög óvenjulegt!  

Mannlíf okt '06

 

 

 


Kvikmyndaverin

Fyndið hvernig sagan endurtekur sig.

 

Fyrir meira en áratug ætlaði allt um koll að keyra í kvikmyndaiðnaðinum.  Stóru kvikmyndaverin kepptust við að hóta og fara í málaferli útaf myndbandsupptökutækjum.  Þ.e.a.s. kæra fólk fyrir að vera taka upp efni.  Kaldhæðni örlaganna er samt að myndbandssala varð ein af aðal tekjulindum fyrirtækjanna og mikil búbót fyrir þau.  Á sama tíma varð upptökubúnaðurinn lítið notaður, rétt eins og á Tivo og öðrum græjum, fólk jú tekur upp...en rannsóknir sýna að fólk er ekki að horfa á það sem það tekur upp.  M.ö.o. er þetta ekki að hafa mikil áhrif.

 

Nú er það sama að gerast með Internetið.  Gæti ekki verið að þegar fyrirtækin hætta stríðinu og fara að svara þörfinni sem er nú til staðar á netinu að internetið geti orðið ein stærsta tekjulindin þeirra?


Daft Punk voru snilld í London

Ég er ekki frá því að ég hafi breyst aftur í Gumma Gonzales í gærkvöldi.  Fór á tónleika með Daft Punk í Hyde Park og gjörsamlega missti það.  Ég er rosalega mikið fan en showið og allt var brilljant.  Töff líka að þeir komi aldrei fram nema í búningum með hjálma. 

Fann myndband á youtube með sama setup-i og programi, fæ bara gæsahúð á að horfa.

 


Súr tíska í Afríku

þegar ég starfaði við sjálfboðastörf í Höfðaborg var mér sagt nokkrum sinnum að það væri í tísku hjá ungum strákum að rífa úr sér tvær efri framtennurnar.  Það væri ,,alveg málið"!  Vitlausi joeÍslendingurinn var auðvitað með það á hreinu að hér væri verið að bulla í sér, enda frekar súrt.

Svo hitti ég fyrsta strákinn sem var búinn að þessu.  Á myndinni er Joe, en hann reif þær úr sér fyrir nokkrum árum og sagðist aldrei hafa notið eins mikillar kvenhylli og eftir að hann reif þær úr sér. 

Eftir að hafa hitt nokkra stráka sem höfðu gert þetta og höfðu sömu sögu að segja fór það að renna upp fyrir mér að þetta væri nú örugglega bara satt.  Það var samt ekki fyrr en ég hafði talað við 3 stelpur sem sögðu þetta óendanlega kynæsandi að mér féllust hendur!

Svona eru menningarheimarnir misjafnir!

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband