Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Kex hostel - Markaðsstarf sem byggir á upplifun

Kex hostel er nýjung í gisti- og veitingastaðaflóru landsins. Kex staðsetur sig sem öðruvísi og skemmtilegra farfuglaheimili sem býður einstaka upplifun. Það býður mun meira virði en hefðbundið farfuglaheimili og stemningu sem er nærri því sem hótel eða gistiheimili reyna að bjóða. Áhuginn fyrir húsnæðinu ýtti eigendunum af stað. Í Reykjavík eru ekki mörg hús sem hafa eins mikla og langa sögu og Skúlagata 28 en hún hýsti kexverksmiðjuna Frón í áratugi frá árinu 1928. Sálin og stemningin í húsinu fékk eigendurna til að leiða hugann að því að nýta það og í framhaldi var ákveðið að opna þar Kex hostel, öðruvísi farfuglaheimili.
 
Húsið hefur mikla lofthæð, vítt er til veggja og allt útlit hússins ber með sér söguna sem það hefur að geyma. Þegar ákveðið var að opna þar farfuglaheimili var sett saman stefnuskjal sem lýsti stemningunni sem átti að skapa. Innihélt það allt frá tónlist, innréttingum, húsgögnum, fatnaði starfsmanna, borðbúnaði til skriffæra. Allir munir, útlit og hönnun urðu að stuðla að því að yfirfæra tilfinningu og tón hússins yfir á farfuglaheimilið. Nafnið Kex var valið til að ýta enn frekar undir tenginguna við sögu hússins.
 
Staðfærsla Kex hostel er að vera lítið sjálfbært póstkort af Reykjavík. Kex er farfuglaheimili með mikla sál sem byggist á sögunni sem fylgir húsinu sem það starfar í. Í stað innanhúsarkitekts var fenginn leikmyndahönnuður við breytingarnar á húsinu. Húsgögn voru flutt inn frá Bandaríkjunum og Þýskalandi í fimm gámum. Á Kex er meðal annars kirkjubekkur frá Amish kirkju, borð frá gömlu bakaríi, 80 ára gamall rakarastóll frá Chicago og 80 ára gamall skápur úr tóbaksverslun.
 
Kex hostel er á þremur hæðum. Öll fyrsta hæðin er lögð undir móttöku, kaffihús/bar, setustofu og leikfimissal sem gefið var nafnið Gym & Tonic. Á hinum hæðunum tveim eru 38 herbergi með 140 gistiplássum og eru herbergin allt frá tveggja manna upp í 16 manna. Til að tryggja réttu upplifunina var ákveðið að leggja mun meira húsrými undir svæði fyrir gesti til að sitja, spjalla og snæða en hefðbundið er. Ástæðan er sú að eigendurnir vildu tryggja að upplifunin kæmi sterkt fram um leið og fólk kæmi inn. Fyrsta hæðin er því eingöngu notuð til að undirstrika hvað Kex hostel stendur fyrir og til að selja virðisaukandi þjónustu. Þó að gistingin sé á farfuglaheimilisverði býður Kex upp á þannig þjónustu að tekjur af hverjum gesti eru mun nær því sem tíðkast á gistiheimilum og hótelum. Íslendingar hafa í miklum mæli sótt matsölustaðinn og barinn sem gerir upplifunina fyrir erlenda gesti enn meiri því þeir eru umkringdir heimamönnum. Eigendum Kex hefur því tekst að búa til einskonar félagsmiðstöð á farfuglaheimilinu þar sem erlendir gestir hitta Íslendinga í skemmtilegu og öðruvísi umhverfi.
 
Markhópur Kex er hinn upplýsti ferðamaður sem ákveður gistinguna sjálfur en ekki með aðstoð ferðaskrifstofu. Um er að ræða ferðamenn sem vilja hitta heimamenn og kynnast ósvikinni menningu áfangastaðarins. Markhópur farfuglaheimila er að öllu jöfnu bakpokaferðalangar. Rúmlega helmingur af gestum Kex hostel er hins vegar með ferðatöskur. Bæði fólk sem eldar og drekkur eigin bjór en einnig fólk sem verslar á veitingastaðnum. Þessi metnaðarfulla stefna hefur því ekki orðið til þess að útiloka stóran hóp af fólki eins og sumir myndu ætla.
 
Markaðsstarfið er einnig óvenjulegt. Almannatengsl, samfélagsmiðlar og orðspors markaðssetning hefur verið leiðandi í markaðssamskiptum farfuglaheimilisins en sökum þess hvað það er óvenjulegt er mikið talað um það á netinu og fjölmiðlafólk sýnir því mikla athygli. Umfjöllunin á netinu gerir það að verkum að þegar ferðamenn eru að leita að gistingu á Íslandi er Kex áberandi á leitarvélunum og á samfélagsmiðlunum. Það er því upplifunin sem knýr markaðsstarfið áfram, þessi einstaka og óvenjulega upplifun sem fólki líkar við. Mikil staðfesta er í stefnunni sem sett hefur verið en fyrir vikið hefur staðurinn fengið geysilega mikla athygli bæði erlendis og á Íslandi.
 
Starfsfólk gegnir lykilhlutverki hjá fyrirtækjum þegar vinna á með upplifanir. Kex reynir að ráða starfsfólk sem er ákveðnar týpur og passar inn í stefnuna. Mikill metnaður er einnig lagður í það að fræða starfsfólk um sögu hússins og þá staðfærslu sem sett hefur verið. Allir starfsmenn Kex eru því mjög meðvitaðir um þá upplifun sem þeir þurfa að endurspegla svo gestir upplifi ósvikna og einstaka stemningu.
 
Kex hostel er dæmi um mjög djarft nýtt fyrirtæki sem aðgreinir með einstakri upplifun. Mörg íslensk fyrirtæki gætu náð miklum árangri með því að nota aðferðafræði Kex hostel sem fyrirmynd. Það var byrjað á fullmótaðri hugmynd um ákveðna stemningu og upplifun sem síðan var búin til viðskiptaáætlun í kringum. Eigendur Kex hostel veðja á það að fólk komi til þeirra af því þeir eru öðruvísi. Þeir vilja tryggja það eftirminnilega stemningu að fólk muni eftir þeim og mæli með. Kex hostel er ekki orðið eins árs gamalt og því er ekki mikil reynsla komin á reksturinn. Til dagsins í dag hefur farfuglaheimilið þó gengið vonum framar og ef tekið er tillit til þeirrar umfjöllunar sem staðurinn hefur fengið má ætla að hann eigi mjög bjarta framtíð fyrir sér. 
 
Guðmundur Arnar Guðmundsson er stjórnarformaður Ímark og annar höfundur bókarinnar Markaðssetning á netinu.  Greinaröð Morgunblaðsins og MBL.IS um markaðsmál er styrkt af Íslandsbanka og Nordic eMarketing. Sjá markaðsnámskeið og þjónustunámskeið.
 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband