Föstudagur, 21. mars 2008
Björn blæs á Evrópusambandið sem lausn núna...
af bjorn.is
"Írar og evran
Í breska blaðinu The Daily Telegraph hinn 13. mars segir, að írska ríkisstjórnin kunni að þurfa að rétta írskum bönkum hjálparhönd vegna lækkunar á fasteignaverði í landinu. Ríkisstjórnin virðist ekki hafa nein ráð til að stöðva alvarlega, efnahagslega niðursveiflu. Tímabundin þjóðnýting á bönkum kunni að verða þrautalendingin.
Morgan Kelly, prófessor við University College í Dyflinni, segir ríkisstjórnina næstum úrræðalausa til að sporna gegn því að niðursveiflan breytist í alvarlegan samdrátt. Hann segir Íra ekki geta gert neitt, sem þjóð mundi venjulega gera við aðstæður sem þessar, þar sem þeir séu hluti evrusvæðisins. Þeir geti ekki lækkað vexti, þeir geti ekki lækkað gengið og þeir hafi miklu minna svigrúm til fjármálalegra aðgerða en fólk ætli. Þeir sitji einfaldlega í súpunni.
Fasteignaverð lækkaði um 7% á Írlandi síðasta ár og heldur áfram að lækka á þessu ári. Atvinnuleysi var 5,2% í febrúar sl. hið mesta í 8 ár. Bankarnir séu bjargar þurfi eins og þeir voru á Norðurlöndunum í byrjun 10. áratugarins, þegar ríkið tók þá í fóstur. Minnt er á, að tveir sænskir bankar voru þjóðnýttir og blásið í þá nýju lífi, áður en þeir voru aftur settir á markað. Svíar hafi þó ekki náð tökum á stjórn eigin peningamála, fyrr en eftir að þeir hættu þátttöku í evrópska gjaldmiðlasamstarfinu (ERM) og tóku peningamálin í eigin hendur.
Í fréttinni er einnig rifjað upp, að síðustu 20 ár hefur verið litið til Írlands sem fyrirmyndar vegna hagvaxtar og efnahagsframfara. Írar eigi þó mest undir viðskiptum í pundum og dollar af öllum evruríkjum og finni því þyngst fyrir áhrifum af síhækkandi gengi evrunnar. Morgan Kelly telur, að Írar hafi tapað 20% af samkeppnishæfni sinni frá því sem hún var, þegar evran kom til sögunnar.
Af umræðum hér á landi um viðbrögð í efnahagsmálum stendur upp úr furðulega mörgum, að eina bjargráðið sé að fara sömu leið og Írar gerðu með aðild að evrusvæðinu. Írar eru eina ESB-þjóðin, sem verður að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon-sáttmála ESB. Af fréttum má ráða, að reiði almennings í garð evrunnar kunni að leiða til þess, að sáttmálanum verði hafnað af Írum. Þar með yrði allt í uppnámi innan ESB.
Á Schengen-fundi í Brussel á dögunum ræddi ég við írskan ráðherra um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann sagði, að hún yrði í sumar. Á hinn bóginn hefði endanleg dagsetning ekki verið ákveðin.
Sjá má, að ríkisstjórnin vill draga sem lengst að tilkynna daginn, því að vitað er, að í kosningabaráttunni muni andstæðingar Lissabon-sáttmálans hvaðanæva að úr Evrópu koma til Írlands til að leggja sitt af mörkum til að fella hann.
Undanfarnar vikur hef ég setið tvo Schengen-ráðherrafundi og þar á meðal tekið þátt í tveimur lokuðum, óformlegum umræðum. Ég fullyrði, að Ísland, Noregur og Sviss standa ekki verr að vígi en aðildarríki ESB, ef áhugi er á því að viðra á þessum vettvangi einhver sérgreind hagsmunamál þessara ríkja eða hafa áhrif á ákvarðanir. Ég er einnig þeirrar skoðunar, að unnt sé að vinna skipulegar að því að kynna og ræða íslenska Schengen-hagsmuni við framkvæmdastjórn ESB með núverandi skipan en ef Ísland væri aðili að ESB.
Störf mín á þessum vettvangi síðan 2003, fyrir utan formennsku í Evrópunefndinni, 2004 til 2007, hafa gefið mér einstakt tækifæri til að afla mér haldgóðrar þekkingar á tengslum Íslands og Evrópusambandsins jafnvel meiri en flestra annarra íslenskra stjórnmálamanna. Með þessa reynslu að baki blæs ég á þau sjónarmið, að með núverandi skipan sé ekki unnt að tryggja íslenska hagsmuni á fullnægjandi hátt gagnvart Evrópusambandinu. Auk þess lít ég á það sem uppgjöf við stjórn íslenskra efnahagsmála að halda, að allur vandi hverfi með því einu að ganga í Evrópusambandið til að komast í eitthvert evruskjól.
Björn Bjarnason,
dómsmálaráðherra"
Athugasemdir
Mikið sammála Birni í þessu! Sé ekki evru hjálpa okkur meira en ekki! Við erum einfaldlega of lítil og sérstæð þjóð fyrir evruna.
Viðar Þorláksson (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 11:05