Færsluflokkur: Ferðalög

Þegar ég bjó í Suður Afríku

Ég vann við sjálfboðastöf í Suður Afríku eitt sumar og skrifaði um það grein í Fréttablaðið. Það vekur því upp margar minningar að sjá fréttir af HM þar þessa dagana.

Hér kemur greinin, sem gefur ágæta mynd af götulífinu þar í dag (þið verðið að afsaka hvað textinn er illa fram settur - það gengur eitthvað illa að gera copy/paste):

 

Götubörnin í Höfðaborg

Þegar ég átti aðeins tvö námskeið eftir í hagfræðinámi sem ég lagði stund á í Kanada stóð

mér til boða að ljúka þeim með því að fara til Suður Afríku og starfa þar sem

sjálfboðaliði. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um og sló strax til. Það voru örfáir

dagar í að ég yrði 26 ára gamall þegar borgarbarnið lagði af stað í ferðalagið. Ég er

fæddur og uppalinn í Reykjavík og hafði aldrei búið nema þar sem öll nútímaþægindi

borgarinnar voru að finna. Rúmlega tveimur árum áður, þegar ég lagði af stað í víking til

Kanada, var ég staðráðinn í að leggja stund á viðskiptafræði. Í háskólanum kynntist ég

svo hagfræðinni og fékk tækifæri til að ræða við ungt fólk frá mjög fátækum löndum.

Það var þá sem áhugi minn á auðlegð þjóðanna kviknaði og ég fór að velta því fyrir mér

af hverju sum lönd væru rík en önnur fátæk. Það var því mikill gleðidagur þegar

yfirmaður hagfræðideildar Acadia University í Kanada bauð mér að halda til Suður

Afríku og ljúka þar með námi mínu.

Eftir tólf klukkustunda ferðalag frá London lenti ég í Höfðaborg sunnudaginn 4. júlí

klukkan 8 um morgun. Fólkið sem ég bjó hjá sótti mig út á flugvöll og framundan var 20

mínútna akstur til nýju heimkynna minna í Afríku. Það hafði greinilega rignt mikið um

nóttina en himinninn var orðinn alveg heiðskýr þegar ég yfirgaf flugstöðina. Hitastigið

var um 20 gráður en á þessum tíma er hávetur í Suður Afríku.

Fljótlega á leiðinni frá flugvellinum rann upp fyrir mér hvert ég var kominn. Það gerðist

þegar tignarlegu fjöllin og fagra náttúran fóru að lúta í lægra haldi fyrir kofa hreysum í

þúsundatali sitthvoru megin við hraðbrautina. Þar var enga vegi né gangstéttar að sjá

heldur einungis moldarvegi, blauta eftir rigningu næturinnar. Börn voru þar að leik í

svaðinu og í kring mátti sjá hesta og kýr á vappi sem gegndu mikilvægu samgöngu- og

fæðuhlutverki að sögn bílstjórans. Þetta var ótrúleg sjón en var þó aðeins byrjunin á því

sem framundan var. Á leiðinni frá flugvellinum brá mér aftur við að sjá bílana í

umferðinni. Stór hluti af þeim hefði aldrei komist í gegnum skoðun á Íslandi og furðaði

ég mig á því að þeir skildu yfirleitt komast áfram. Það var líka greinilegt að margar

fjölskyldur slá saman í gamla pall- eða vörubíla til þess að komast á milli. Pallarnir á

þeim voru þéttsetnir af fólki og bílarnir á yfir 100 km hraða. Þrátt fyrir að pallarnir væru

alveg opnir voru engin „öryggisbelti“ né nokkuð annað fyrir pallafólkið til að halda sér í

ef eitthvað færi úrskeiðis.

Aðskilnaðarstefnan sem var við lýði þar til 1994 hefur sett djúp ör á samfélagið í Suður

Afríku. Á tímum aðskilnaðarstefnunnar var það ríkisstjórnin sem ákvað hvar fólk með

litað hörund bjó, fór í skóla og vann. Ennfremur voru giftingar hvítra og litaðra bönnuð

og öll „náin“ samskipti þeirra á milli varðaði við lög. Reglan var, að því dekkra sem

hörundið var, því minni réttindi. Á tímum aðskilnaðarstefnunnar bjó ríkisstjórnin til

svokölluð heimalönd fyrir hvern kynþátt. Fólk var flutt á þessi heimalönd og meinað að

yfirgefa sitt svæði nema til að sækja vinnu. Margar sögur eru til um fólk sem var flutt

nauðugt frá heimilum sínum á heimaland þar sem það þekkti engan og hafði aldrei komið

áður.

Þrátt fyrir að aðeins níu prósent af þjóðinni væru með hvítt hörund fékk sá hópur einn

kosningarétt og rúmlega 80% af jörðum landsins. Fólk með dökkt hörund tilheyrði

hinum hópnum sem fékk afganginn af jarðnæðunum, sem voru jafnframt lökustu

jarðirnar og erfiðast var að yrkja. Síðari hópurinn fékk ennfremur mjög takmarkaðan

aðgang að þjónustu hins opinbera og engan kosningarétt. Í skoðunarferðum sá ég gömul

skilti frá tímum aðskilnaðarstefnunnar þar sem bílastæði og bekkir voru merkt ,,Eingöngu

til notkunar fyrir hvíta.” Einnig sá ég skilti sem höfðu verið fyrir utan kirkju í Höfðaborg

sem á stóð „Hundar og litaðir ekki velkomnir!“

Eins og gefur að skilja þegar 90% þjóðarinnar bjó við mjög takmarkað athafnafrelsi í

marga áratugi festist meirihluti þessa hóps í fátækt í Suður Afríku og á enn í dag erfitt

með að komast í bjargálnir. Það má í raun segja að í landinu búi tvær þjóðir, önnur er

hvít, rík og menntuð en hin lituð, fátæk og fáfróð. Þó aðskilnaðarstefnan hafi liðið undir

lok fyrir 11 árum virðist atvinnuleysi vera fast yfir 25%, en séu þeir sem gefist hafa upp á

atvinnuleitinni taldir með hækkar talan í yfir 40%.

Stór hluti þeirra 3,2 milljóna manna sem búa í Höfðaborg hafa ekki aðgang að rafmagni

né rennandi vatni. Höfðaborg er einnig að vaxa mjög hratt þar sem fólk er í auknum

mæli að bregða búi og að flytjast á mölina. Þessi straumur fólks hefur verið stöðugur

síðan aðskilnaðarstefnunni lauk og fólk með dökkt hörund fékk aftur frelsi til að ferðast

og setjast að þar sem það kaus. Borgin er að vaxa um 100 þúsund manns á hverju ári sem

er margfalt meira en borgaryfirvöld ráða við.

Þegar fólk flyst af landsbyggðinni til Höfðaborgar taka venjulega nokkrar fjölskyldur sig

saman við að reisa sér heimili, sem í mínum augum voru ekkert nema kofa hreysi.

Framkvæmdirnar fara yfirleitt fram þegar tekur að skyggja og er lokið þegar sólin kemur

upp morguninn eftir. Þá er ekki óalgengt að heilt kofaþorp sé komið upp. Fólkið á í

flestum tilfellum ekkert tilkall til byggingalandsins og eru kofarnir oft reistir á svæðum

sem eru mjög óheppileg til byggingar. Það mátti einnig víða sjá kofa sem voru aðeins

steinsnar frá miklum umferðargötum auk þess sem umferðarskilti og fleira voru notuð

sem stoðir fyrir suma kofana. Fólk var greinilega tilbúið til að búa við mjög ömurlegar

aðstæður í þeirri von um að fá vinnu í borginni.

Ég ferðaðist í örfáa daga eftir komu mína til Höfðaborgar en hóf svo fljótlega störf.

Sjálfboðavinnan sem ég sinnti var í stóru eldhúsi sem tilheyrði Saint George’s

dómkirkjunni í hjarta Höfðaborgar. Hún er fræg fyrir að Desmond Tutu, sem fékk

friðarverðlaun Nobels árið 1984, var þar erkibiskup. Þar var súpa og brauð í boði fyrir þá

sem áttu ekki fyrir mat. Það voru um 300 manns sem sóttu Eldhúsið reglulega en stór

hluti þeirra kom á hverjum degi. Meirihluti gestanna átti við vímuefnavandamál að stríða

en lím var vinsælasta vímuefnið sökum þess hve ódýrt það var. Það tók alltaf mjög á að

sjá krakka, alveg niður í 7 ára gamla, koma á morgnana til að snæða í mjög svo annarlegu

ástandi sökum vímuefna. Konur með börn alveg niður í 6 til 7 mánaða gömul sáust einnig

reglulega í súpueldhúsinu. Konur voru þó í miklum minnihluta. Ástæðan var sú að

konur verða fyrir mesta ofbeldinu á götum Höfðaborgar. Þeim, sem eru í sambandi, er

yfirleitt nauðgað og misþyrmt eingöngu af makanum. Þeim, sem hins vegar eru ekki í

sambandi, er misþyrmt og nauðgað af öllum. Það var því í undantekningatilfellum sem

konur komu karlmannslausar í súpu og brauð.

Flestir sem komu í Eldhúsið og ég spjallaði við bjuggu undir trjám í miðborginni eða í

úthverfum Höfðaborgar. Það kom þó fyrir að farandverkamenn af landsbyggðinni komu

í leit að fæðu til þess að brúa bilið þar til launin byrjuðu að streyma inn. Mjög margir

sem þangað komu höfðu sótt eldhúsið í mörg ár. Ég kynntist til að mynda ungum strák,

Sydney, sem var 23 ára gamall. Hann hafði byrjað að koma í eldhúsið 13 ára gamall eftir

að hafa flúið að heiman vegna ofbeldis foreldra sinna sem er ekki óalgeng fortíð

götubarna. Sydney hætti að lifa af glæpum tveimur árum áður en ég kynntist honum.

Hann sagði mér að ferðamenn væru vinsæl fórnarlömb en hann hafði mun meira upp úr

því að stela og ræna en láglaunastörf gáfu í aðra hönd. Að auki var nánast ómögulegt að

fá þessi störf. Sydney var opinn og skemmtilegur en aðspurður um hvort hann hefði ekki

lent í lögreglunni sagði hann: „Það var allt í lagi. Hún lamdi okkur samt stundum en í

fangelsi er oft mjög gott að vera. Þar þarftu aldrei að hafa áhyggjur af því að fá ekki að

borða, færð oft að horfa á sjónvarp auk þess sem maður þekkir yfirleitt svo marga þar.“

Flest það fólk sem ég kynntist í Eldhúsinu hafði sömu sögu að segja og kvörtuðu aðeins

yfir þrengslum og reglulegum barsmíðum fangavarða sem það vildi nú meina að væru

ekki svo slæmar.

Prestur að nafni John Philemon ,sem starfaði í dómkirkjunni, sagði mér eitt sinn frá því

að flest ógæfufólkið sem sótti Eldhúsið hefði fjögur til fimm nöfn sem það notaði.

Philemon hafði nokkrum sinnum heimsótt götukrakka í fangelsi sem hann hafði verið að

reyna hjálpa og komist að því að krakkarnir sem hann þekkti voru í fangelsi undir allt

öðrum nöfnum en hann þekkti þá. Það er því ekki óalgengt að sami einstaklingurinn hafi

farið nokkrum sinnum í fangelsi en aldrei á sama nafni. Það getur því verið erfitt að

fylgjast með afbrotaferlum glæpamanna af götunni.

Annar strákur sem ég kynntist hét Thommy. Hann var 27 ára gamall og bjó í kofa í einu

fátækrahverfanna. Ólíkt öllum öðrum sem ég kynntist er sóttu eldhúsið átti hann bíl og

var mjög vel að máli farinn. Thommy hafði starfað við tölvuviðgerðir en var búinn að

vera atvinnulaus í rúmlega tvö ár og var stöðugt að sækja um störf. Philemon lánaði

honum föt reglulega til þess að koma vel fyrir í atvinnuviðtölum. Thommy gekk samt

ekkert að fá vinnu þrátt fyrir stanslausa leit og oft mörg viðtöl í hverjum mánuði. Þrátt

fyrir lítinn árangur var hann staðráðinn í að gefast ekki upp eins og flestir gera og þannig

leiðast út í óreglu og glæpi.

Anthony var enn annar strákur sem ég kynntist en hann kom nærri daglega í Eldhúsið.

Ég og fleiri starfsfélagar mínir fórum einnig nokkrum sinnum með honum í göngutúra á

Parade svæðinu. Þar eru borgarskrifstofur Höfðaborgar en einnig svefnstæði flestra

þeirra sem sækja Eldhúsið. Það fékk óneitanlega svolítið á mann að sjá hvernig fólkið bjó

sem ég hafði verið að spjalla við og afgreiða. Yfirleitt eru fimm eða fleiri saman í klíkum

en þær eru oft kynjaskiptar. Hver klíka ,,átti” tré sem hún svaf undir. Uppi í trénu

geymdi svo klíkan allar veraldlegar eigur sínar, t.d. sængur, mat, drykki o.fl. Klíkurnar

pössuðu trén fyrir hvor aðra svo það var undantekning að einhverju var stolið úr þeim. Í

einni ferðinni okkar á sólríkum degi var greinilega þvottadagur. Margir hópanna voru þá

að þvo fötin af sér og lágu því föt til þerris út um allt á gangstéttunum. Til að drepa

tímann var mikið af unga fólkinu að sniffa lím og sumir vægast sagt út úr heiminum.

Mikið af millistéttarfólki fer úr og í vinnu um þetta svæði og eru þar bílastæði mjög víða.

Því var það mjög átakanlegt að sjá svona unga krakka liggjandi fyrir allra augum með

poka yfir andlitum sínum sniffandi lím í allt öðrum heimi en þeim sem ég var í. Þessir

tveir ólíku heimar fátækra og ríkra birtust mér aldrei eins greinilega og á þessum annars

fallega virka degi í Höfðaborg.

Ég komst aldrei almennilega að því hvað Anthony gerði en var þó orðinn nokkuð viss um

að hann framfleytti sér með glæpum og betli. Eftir fyrstu vikuna í Eldhúsinu var ég

búinn að sjá þó nokkra sem báðar framtennurnar vantaði í en ég var viss um að lélegri

tannhirðu væri um að kenna. Anthony var einn af þeim. Margir sem komu í eldhúsið

höfðu ekki fyrir því að þrífa þvag sem þeir höfðu leyst í fötin sín svo það var ekki erfitt

að ímynda sér litla, eða enga, tannhirðu. Reyndin var önnur því hér var um tískubylgju

að ræða, m.ö.o. þeir voru að rífa framtennurnar úr hvorum öðrum! Ég varð svo hissa

þegar ég komst að þessu að ég mátti til með að spyrja Anthony út í þetta. Hann svaraði

því til að hann nyti mun meiri kvenhylli nú en þegar hann var með allar tennurnar á

sínum stað. Stúlkur sem ég spjallaði við í Eldhúsinu staðfestu þetta og sögðu að

tannleysið væri afar kynþokkafullt. Eftir þessa uppgötvun var ekkert sem gat komið mér

á óvart.

Í Eldhúsinu var yfirleitt mest að gera þegar rigning var úti því þá gekk lítið að betla

peninga af vegfarendum. Minnst var hins vegar að gera þegar fólk fékk útborgað. Þá

voru íbúar Höfðaborgar mjög gjafmildir og því mikið að hafa upp úr því að betla. Svo á

hverjum föstudegi var félagsfræðingur sem kenndi gestum Eldhússins að lesa og skrifa.

Næstum enginn kunni að lesa og snerist kennslan því aðallega um að kenna þeim að

skrifa nafnið sitt, sem þau svo yfirleitt gleymdu fljótt aftur. Því var reynt að hvetja fólkið

til að taka blöðin með sér sem það hafði skrifað á til upprifjunar. Þó að meirihlutinn hafi

hvorki verið læs eða skrifandi voru alltaf einhverjir inn á milli sem gátu eitthvað örlítið í

reikningi, eða öðrum fögum, sem þá var reynt að byggja á og þjálfa.

Það var alltaf stór hópur sem sótti Eldhúsið sem ég og starfsfélagar mínir vissum að var

að leita að vinnu og betra lífi. Öðru hvoru hætti fólk að koma sem hafði komið daglega í

langan tíma. Þá var alltaf haldið í vonina um að viðkomandi hefði tekist að næla sér í

vinnu og komist á beinu brautina til betra lífs. Það voru þó yfirleitt aðrar og oft mjög

sorglegar ástæður fyrir því að fólk hætti að sjást. Einstaka sinnum var ástæðan sú að fólk

komst í vinnu og sagði þá skilið við óreglu og glæpi. Þetta var alltaf mjög ánægjulegt því

markmið Eldhússins, og okkar sem þar störfuðum, var að fæða fólk og fræða ásamt því

að hvetja það til að taka hin þungu spor í átt að betra lífi. Að komast í vinnu var samt

aðeins fyrsti þröskuldurinn. Eftir óreglu og ólifnað á götunum til margra ára reynist það

fólki oft mjög erfitt að temja sér þann aga sem þarf til að halda starfi. Atriði sem hljóma

einföld eins og að vakna á morgnana, vera vímulaus allan daginn og mæta á réttum tíma í

vinnu geta verið mjög erfið fyrir einstakling sem í árafjölda hefur búið á götunni.

Á nýju ári fékk ég tölvupóst með þeim skilaboðum að Anthony og Sydney og fleiri sem

ég kynntist væru enn að koma daglega í Eldhúsið. Nokkrir sem ég hafði minna kynnst

sáust nú sjaldnar og aðrir ekkert vegna ennþá meiri óreglu. Thommy var undantekningin

því hann hafði fengið vinnu við útkeyrslu fyrir tölvufyrirtæki. Thommy var aldrei háður

neinum vímugjöfum og hafði sýnt mikla þrautseigju við stanslausa atvinnuleit sem staðið

hafði yfir í meira en tvö ár. Hann uppskar árangur erfiðisins og fékk nú tækifæri til að

bæta líf sitt. Ennfremur sýnir árangur Thommy hversu mikilvægt starf Eldhússins er og

að það þarf enginn að lifa á götunni. Það eru til leiðir fyrir alla til að komast af götunni

en sporin þaðan geta bæði verið mörg og þung. Hinn valkosturinn er lífið á götunni sem

lágur meðalaldur sýnir að enginn þolir til lengdar.

Guðmundur Arnar Guðmundsson - Fréttablaðið 5 Janúar 2006


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband