Þriðjudagur, 4. maí 2010
Stærsta auglýsingaherferð Íslandssögunnar að fara af stað!
Nú er að fara af stað sennilega stærsta auglýsingaherferð sem hefur verið ráðist í á Íslandi. Virkilega jákvætt skref í átt að mikilli sókn í að ná fleiri erlendum ferðamönnum til Íslands.
Staðfærsla herferðarinnar : Inspired by Iceland : http://inspiredbyiceland.is/
Það verður gaman að sjá hvernig ,,execution-ið" verður á herferðinni þegar allt verður komið á hreint - en þetta lofar góðu! Greinilegt er af heimasíðu verkefnisins að íslenska þjóðin fær að taka þátt.
Hér er tilkynning af www.saf.is sem birtist í dag:
,,Á ferðamálaþingi í dag undirrituðu Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs samning við Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Icelandair, Reykjavíkurborg, Iceland Express, Útflutningsráð um markaðsátak í ferðaþjónustu í maí og júní 2010 vegna áhrifa eldgossins í Eyjafjallajökli á árinu 2010 á atvinnugreinina.
Samningsaðilar munu ráðast í markaðsátak sem beinist að erlendum ferðamönnum. Ferðaþjónustufyrirtækin standa fyrir framleiðslu kynningar- og auglýsingaefnis sem síðan verður til frjálsra afnota í maí og júní. Opinberir aðilar munu fyrst og fremst stuðla að útbreiðslu átaksins með því að styrkja birtingu og dreifingu á efninu sem víðast.
Einnig verður efnt til þjóðarátaks um að bjóða fólki og ferðamönnum til Íslands Fyrirtæki í ferðaþjónustu verða drifkrafturinn í þjóðarátakinu en vonast er til þess að allir Íslendingar líti á sig sem sendiherra þess, sagði iðnaðarráðherra á ferðamálaþingi. Öllum Íslendingum, fyrirtækjum, einstaklingum, samtökum og hópum verður boðið að nota sér það auglýsinga- og kynningarefni sem framleitt verður og nýta í sínum tengslanetum og samskiptum til þess að bjóða fólk og ferðamenn velkomna til Íslands. Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið að taka þátt í átakinu.
Markmið átaksins er að draga úr neikvæðum áhrifum á trausta markaði sem tekið hefur langan tíma að byggja upp. Átakinu er einnig ætlað að styrkja ímynd Íslands og skapa tækifæri úr þeirri umfjöllun sem landið hefur fengið á erlendum vettvangi.
Eins og samþykkt var á ríkisstjórnarfundi 27. apríl s.l. mun ríkissjóður mun leggja allt að 350 milljónir króna til verkefnisins gegn því að jafnháu mótframlagi verði varið í verkefnið af hálfu fyrirtækja í ferðaþjónustu og annarra aðila sem hafa hag af verkefninu. Framlög annarra samningsaðila eru eftirfarandi: Icelandair leggur til 125 milljónir, Reykjavíkurborg leggur til 100 milljónir, Iceland Express leggur til 50 milljónir, Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) leggja til 43 milljónir og Útflutningsráð leggur til 30 milljónir. Markaðsstofur landshlutanna hafa tilkynnt 2 milljónir króna inn í átakið..
Útflutningsráð mun hafa umsjón með fjárreiðum verkefnisins og nýtur við það fulltingis Skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna (SRA). Í þessu felst m.a innheimta framlaga samningsaðila, bókhald fyrir verkefnið og greiðsla reikninga vegna kostnaðar við verkefnið. Útflutningsráð skilar fjárhagslegu lokauppgjöri vegna verkefnsins til annarra samningsaðila 1. ágúst 2010. Umsjón með markaðsátakinu verður í höndum sérstakra verkefnisstjórna á vegum samningsaðila.
Mynd: Frá vinstri Birkir Guðnason, Icelandair; Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra; Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri; Matthías Imsland, Iceland Express; Árni Gunnarsson, SAF og Jón Ásbergsson, Útflutningsráði."
Meginflokkur: Auglýsingar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Markaðsmál, Markaðssetning á netinu | Breytt s.d. kl. 23:14 | Facebook